Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 612. máls.

Þskj. 897  —  612. mál.



Frumvarp til laga

um Veiðimálastofnun.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.
Stjórnsýsluleg staða.

    Veiðimálastofnun er rannsóknastofnun á sviði ferskvatnsfiska og lífríkis þeirra sem heyrir undir yfirstjórn landbúnaðarráðherra.
    Veiðimálastofnun skal leitast við að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum í nánu samstarfi og samvinnu við menntastofnanir landbúnaðarins.

2. gr.
Forstjóri.

    Ráðherra skipar forstjóra Veiðimálastofnunar til fimm ára í senn.
    Forstjóri skal hafa háskólamenntun og þekkingu á fræðasviði stofnunarinnar.
    Forstjóri hefur á hendi stjórn stofnunarinnar og ræður annað starfsfólk og ákveður starfssvið þess.

3. gr.
Ráðgjafarnefnd.

    Forstjóri hefur sér til ráðuneytis ráðgjafarnefnd sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Einn nefndarmaður skal skipaður án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangveiðifélaga, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga og einn samkvæmt sameiginlegri tilnefningu menntastofnana landbúnaðarins. Ráðherra skipar formann. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Forstjóri situr fundi með ráðgjafarnefnd.
    Formaður ráðgjafarnefndar kveður nefndina saman til fundar þegar þurfa þykir.

4. gr.
Hlutverk Veiðimálastofnunar.

    Hlutverk Veiðimálastofnunar er:
     1.      að afla með grunnrannsóknum alhliða þekkingar á nytjastofnum ferskvatns og lífríkis þeirra og miðla upplýsingum þar um,
     2.      að hvetja til sjálfbærrar nýtingar ferskvatnsvistkerfa,
     3.      að treysta grunn vísindalegrar ráðgjafar um nýtingu nytjastofna ferskvatna,
     4.      að treysta grunn vísindalegrar ráðgjafar í fiskrækt í ám og vötnum,
     5.      að rannsaka hvernig fiskeldi og fiskrækt megi best stunda í sátt við íslenska náttúru og villta stofna,
     6.      að veita ráðgjöf um lífríki áa og vatna í sambandi við framkvæmdir og mannvirkjagerð,
     7.      að stunda rannsóknir á eldi vatnalífvera,
     8.      að annast þróunarstarf og leiðbeiningar í veiðimálum og annarri nýtingu lífríkis ferskvatns,
     9.      að veita lögboðnar umsagnir,
     10.      að annast rannsóknir á einstökum ferskvatnsvistkerfum gegn gjaldi,
     11.      að stunda rannsóknir í sjó á nytjastofnum ferskvatns,
     12.      að annast aðrar rannsóknir og tengd verkefni sem ráðherra felur stofnuninni með reglugerð.

5. gr.
Stjórnskipulag Veiðimálastofnunar.

    Forstjóri ákveður skipurit Veiðimálastofnunar.
    Veiðimálastofnun er heimilt að starfrækja starfsstöðvar á landsbyggðinni.
    Veiðimálastofnun er heimilt að starfrækja rannsóknastöð í fiskrækt, fiskeldi og hafbeit.
    Veiðimálastofnun er heimilt að eiga aðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum, sem eru hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð, er þróa hugmyndir og hagnýta rannsóknar- og þróunarverkefni sem stofnunin vinnur að hverju sinni.

6. gr.
Gjaldtaka o.fl.

    Veiðimálastofnun er heimilt að taka að sér rannsóknir og önnur verkefni á starfssviði sínu fyrir einstaklinga, félög og stofnanir gegn endurgjaldi.
    Þann hluta starfsemi Veiðimálastofnunar, sem rekinn er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði, þar sem stofnunin aflar sér tekna með sölu á rannsóknum, ráðgjöf og annarri þjónustu, skal skilja fjárhagslega frá öðrum þáttum rekstrarins.

7. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur með reglugerð mælt nánar fyrir um starfsemi Veiðimálastofnunar og framkvæmd þessara laga.

8. gr.
Gildistaka o.fl.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2006. Um leið falla úr gildi 2. og 3. mgr. 90. gr., 91. og 92. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Frá gildistöku laga þessara og til loka ársins 2010 skal starfa samráðsnefnd um framkvæmd þeirra, laga um lax- og silungsveiði, laga um eldi vatnafiska, laga um fiskrækt og laga um varnir gegn fisksjúkdómum. Hlutverk samráðsnefndar er að fylgjast með og stuðla að greiðri framkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra er lögin varða helst. Nefndin skal skipuð af landbúnaðarráðherra og í henni sitja tíu fulltrúar tilnefndir af eftirtöldum aðilum: Landssambandi veiðifélaga, Landssambandi stangveiðifélaga, Landssambandi fiskeldisstöðva, fisksjúkdómanefnd, Veiðimálastofnun, Landbúnaðarstofnun, Fiskistofu, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Þá skipar landbúnaðarráðherra einn nefndarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

II.

    Núverandi starfsfólk Veiðimálastofnunar gegnir áfram störfum sínum hjá stofnuninni eftir gildistöku laga þessara. Núverandi framkvæmdastjóri Veiðimálastofnunar skal gegna starfi forstjóra út núverandi skipunartíma sinn. Núverandi stjórn Veiðimálastofnunar skal láta af störfum við gildistöku laga þessara en jafnframt skal þá skipa ráðgjafarnefnd í samræmi við 3. gr. laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 1. júlí 2001 fól landbúnaðarráðherra þeim dr. jur. Gauki Jörundssyni, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, dr. jur. Páli Hreinssyni, lagaprófessor við Háskóla Íslands, og Ingimari Jóhannssyni, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, að semja nýtt frumvarp til laga um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum. Við fráfall dr. jur. Gauks Jörundssonar voru í hans stað skipaðir til starfans þeir Karl Axelsson hrl., lektor við lagadeild Háskóla Íslands, og Þorgeir Örlygsson, dómari við EFTA-dómstólinn. Með nefndinni störfuðu Arnar Þór Stefánsson, héraðsdómslögmaður á Lex-Nestor lögmannsstofu, og Atli Már Ingólfsson, lögfræðingur og deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu. Þá hefur dr. Sigurður Guðjónsson, forstöðumaður Veiðimálastofnunar, verið ráðgjafi við samningu frumvarpsins. Í september 2005 var afrakstur af vinnu nefndarinnar kynntur á vef landbúnaðarráðuneytisins og almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á því að gera athugasemdir við drög að frumvörpunum. Bárust nefndinni athugasemdir frá 34 aðilum og samtökum. Fór nefndin yfir þær athugasemdir og tók tillit til þeirra eftir því sem efni stóðu til.
    Endurskoðun löggjafar á þessu sviði er afar umfangsmikið verkefni þar sem gæta þarf fjölþættra hagsmuna og lagaskila. Stofn gildandi löggjafar er að hluta til frá árinu 1932, þótt ný stofnlög hafi verið sett 1941, 1957 og 1970. Með einstökum lögum hafa síðan verið gerðar fjölmargar breytingar á gildandi stofnlögum á hverjum tíma. Tilraunir til heildarendurskoðunar laganna á síðustu áratugum hafa hins vegar ekki borið árangur.
    Við þá lagaendurskoðun sem nú hefur farið fram hefur sú leið verið farin að einfalda löggjöfina og gera framsetninguna markvissari. Er að því stefnt með þrennum hætti. Í fyrsta lagi hafa verið samin frumvörp um fjóra þætti eða málaflokka sem nú eru hluti af lögum um lax- og silungsveiði og þannig gert ráð fyrir að sérlög gildi á þeim sviðum. Þetta eru ákvæði frumvarps þessa um Veiðimálastofnun, ákvæði um fiskeldi, ákvæði um varnir gegn fisksjúkdómum og loks ákvæði um fiskrækt. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að nánari útfærsla einstakra atriða verði í reglugerðum settum af landbúnaðarráðherra og reglum settum af Landbúnaðarstofnun. Í þriðja lagi hefur uppbyggingu laganna verið breytt, bæði í því skyni að einfalda og skýra, sem og að samræma fyrirkomulag og uppbyggingu laganna viðteknum viðhorfum við lagasmíð í upphafi 21. aldar.
    Til þess að benda sem skýrast á nauðsynlegt samhengi umræddrar löggjafar eru frumvörp sem lúta að þessum fjórum málaflokkum lögð fram samhliða frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði og ráðgert að þau öll og málaflokkurinn í heild fái þannig samræmda þinglega meðferð og afgreiðslu. Í því samhengi er rétt að benda á að lög um lax- og silungsveiði verða eins konar þungamiðja þessarar lagasetningar, en hin frumvörpin fjögur koma þar til fyllingar og stuðnings, þótt þau, samkvæmt efni sínu, séu sjálfstæð.
    Lög um lax- og silungsveiði eru að stofni til frá árinu 1932 en talsverðar breytingar urðu á þeim árið 1970. Síðar hafa verið gerðar breytingar á einstökum köflum og greinum laganna. Í þeim breytingum var m.a. aðskilin stjórnsýsla í veiðimálum sem embætti veiðimálastjóra fer með annars vegar og hins vegar rannsóknir í veiðimálum sem Veiðimálastofnun fer með. Þær breytingar voru gerðar á árunum 1994 og 1997 og komu að fullu til framkvæmda árið 1997. Síðan hefur Veiðimálastofnun einvörðungu starfað sem rannsóknastofnun.
    Í frumvarpi þessu er hlutverk Veiðimálastofnunar betur skilgreint en er í núgildandi lögum um lax- og silungsveiði og fært nær því sem það í raun hefur verið síðustu ár. Í frumvarpinu er einnig gerð sú breyting að stjórn stofnunarinnar er lögð af en margsinnis hefur verið á það bent, m.a. af Ríkisendurskoðun, að stjórnsýslulega fari illa saman að hafa stjórn í ríkisstofnunum sem heyra undir beint boðvald ráðherra. Erfiðleikar skapast þegar slík stjórn og ráðherra vilja fara ólíkar leiðir. Í staðinn er lagt til að ráðgjafarnefnd verði stofnuð til að góð tengsl haldist við hagsmunaaðila þá sem stofnunin starfar með.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er stjórnsýsluleg staða stofnunarinnar skýrð og á hvaða sviði hún starfar. Að stjórnsýslurétti telst stofnunin lægra sett stjórnvald gagnvart landbúnaðarráðherra og heyrir undir yfirstjórn hans. Í greininni er einnig kveðið á um samstarf stofnunarinnar við menntastofnanir landbúnaðarins, þ.e. Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla. Með þessu er ætlunin að koma á formlegu samstarfi stofnananna í rannsóknum sem vonir standa til að styrkja muni bæði skólana og hina nýju stofnun. Það ræðst síðan af eðli þeirra verkefna sem stofnunin sinnir á hverjum tíma hvernig þessu samstarfi verður háttað.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um hver skipi forstjóra og hvaða almennu hæfisskilyrði hann þarf að uppfylla. Í 3. mgr. er síðan mælt fyrir um meginstarfsskyldur forstjóra, þ.e. að hann stjórni stofnuninni, ráði starfsfólk og ákveði starfssvið þess.

Um 3. gr.

    Í stað þess að stjórn sé yfir stofnuninni er lagt til að sett verði á fót ráðgjafarnefnd sem sé forstjóra til ráðuneytis og með því haldið góðum tengslum við hagsmunaaðila þá sem stofnunin starfar með. Þarna eru einnig mynduð sterkari tengsl við menntastofnanir landbúnaðarins.

Um 4. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um hlutverk Veiðimálastofnunar. Í ákvæðum greinarinnar er betur skýrt en áður hvaða hlutverki stofnunin gegnir. Afmörkun verkefna fer nærri því sem stofnunin hefur fengist við á síðustu árum. Nánar eru afmarkaðar skyldur stofnunarinnar við rannsóknir og miðlun rannsóknaniðurstaðna. Hvað varðar það hlutverk stofnunarinnar er lýtur að rannsóknum á eldi vatnalífvera, sem mælt er fyrir um í 7. tölul., er einkum átt við eldi laxfiska af villtum uppruna enda tengist slíkt eldi öðrum þáttum í hlutverki stofnunarinnar. Auk þessa er heimild til handa ráðherra til þess að kveða nánar á um hlutverk stofnunarinnar í reglugerð.

Um 5. gr.

    Í greininni er kveðið á um skipulag stofnunarinnar og heimildir til að eiga og reka rannsóknastöð og eiga í sprotafyrirtækjum sem verða til vegna rannsókna og þróunarvinnu stofnunarinnar líkt og flestar aðrar rannsóknastofnanir ríkisins hafa heimild til. Það getur verið talsvert hagsmunamál fyrir hið opinbera að gera verðmæti úr rannsókna- og þróunarvinnu stofnana sinna.

Um 6. gr.

    Lagt er til í greininni að stofnunin geti selt þjónustu sína á markaði eins og hún hefur gert til þessa en þess jafnframt gætt að virt séu ákvæði samkeppnislaga. Þessi háttur er hafður á nú svo að ekki er um breytingar að ræða. Rétt er að hnykkja á þessu í lagatextanum.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.

    Í frumvarpsgreininni er mælt fyrir um gildistöku laganna, verði frumvarpið samþykkt, sem og brottfall samsvarandi ákvæða í gildandi lax- og silungsveiðilögum.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Svo sem víða hefur verið vikið að í athugasemdum með frumvarpi þessu hefur sú leið verið farin við endurskoðun gildandi lax- og silungsveiðilaga að kljúfa efni þeirra upp og greina í fimm lagabálka. Liggur því tilgrundvallar það sjónarmið að skipa saman í lagabálka þeim atriðum sem efnislega samstöðu eiga en skilja að öðru leyti á milli. Birtist þetta í því að samhliða frumvarpi þessu eru lögð fram fjögur önnur frumvörp, þ.e. frumvarp til laga um lax- og silungsveiði, frumvarp til laga um fiskrækt, frumvarp til laga um eldi vatnafiska og frumvarp til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, og munu þau öll, ef að lögum verða, mynda þá lagaumgjörð sem nú er að finna í lax- og silungsveiðilögunum einum. Til viðbótar þessum frumvörpum munu nýsamþykkt lög um Landbúnaðarstofnun víða koma við sögu við framkvæmd lax- og silungsveiðilöggjafar. Þá er og rétt að hafa í huga að samhliða þessari fyrirkomulagsbreytingu er öll stjórnsýsla við lagaframkvæmdina einfölduð og munu færri aðilar koma þar að málum en nú er.
    Þegar svo miklar breytingar eru gerðar á lagaumhverfinu er nauðsynlegt að tryggja að lagaframkvæmdin geti gengið sem best fyrir sig, agnúar verði sniðnir af og samþætting tryggð. Því er í bráðabirgðaákvæði I með frumvarpinu gert ráð fyrir því, að á næstu fimm árum frá gildistöku laganna starfi samráðsnefnd um framkvæmd þeirra og annarra þeirra laga er mynda þá lagaumgjörð sem hér er lögð til. Hún á að vera samstarfs- og samráðsvettvangur þeirra aðila sem lagaframkvæmdin varðar helst. Er henni ætlað að fylgjast með og stuðla að greiðri lagaframkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra sem lögin varða helst.
    Í bráðabirgðaákvæðinu er gert ráð fyrir því að nefndin verði skipuð til fimm ára, enda ætti þá að vera komin góð reynsla á lagaframkvæmdina. Ef reynslan af starfi nefndarinnar er jákvæð er með lagabreytingu unnt að festa hana varanlega í sessi.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Með ákvæði þessu eru tekin af tvímæli um að jafnvel þótt sett séu heildarlög um Veiðimálastofnun, og ákvæði um stofnunina þannig færð úr lax- og silungsveiðilögum, muni núverandi starfsfólk Veiðimálastofnunar gegna áfram störfum sínum hjá stofnuninni verði frumvarp þetta að lögum. Þá mun núverandi framkvæmdastjóri Veiðimálastofnunar gegna starfi forstjóra stofnunarinnar út núverandi skipunartíma sinn. Hins vegar skal stjórn Veiðimálastofnunar láta af störfum verði frumvarp þetta að lögum en jafnframt skal þá skipa ráðgjafarnefnd í samræmi við 3. gr.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Veiðimálastofnun.

    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, frumvarpi til laga um fiskrækt, frumvarpi til laga um eldi vatnafiska og frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði, en lagafrumvörpum þessum er ætlað að leysa af hólmi gildandi lög um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum.
    Meginbreytingar frumvarpsins frá þeim ákvæðum gildandi laga, sem ráð er fyrir gert að falli brott við lögfestingu þess, felast í því að skilgreint hlutverk Veiðimálastofnunar er fært nær því sem það hefur verið í raun síðustu ár og stjórn stofnunarinnar lögð af en í staðinn sett á fót ráðgjafarnefnd.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.